Um mig

Hugrún Vignisdóttir (hún/she)

Ég lærði BS í sálfræði í Háskóla Íslands á árunum 2006-2009. Þá flutti ég út til Danmerkur með manninum mínum og kláraði Cand.Psych nám frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Ég var komin með vinnu á Íslandi áður en ég útskrifaðist og þess vegna fluttum við aftur heim til Íslands. Ég er gift og eigum við saman tvö börn sem fædd eru árin 2010 og 2014. Áhugamálin mín eru ferðalög, útivera og hreyfing með fjölskyldunni minni, bakstur og jóga. Mér finnst ofsalega gott að fara í sund og sauna, vera við hafið og hugleiði reglulega til að finna ró í hversdagsleikanum.

Ég starfaði á Skólaskrifstofu Suðurlands sem sálfræðingur við skóla frá 2012-2013. Síðan breyttist þjónustan aðeins og ég hélt áfram að starfa sem sálfræðingur við skóla hjá Skólaþjónustu Árnesþings frá árinu 2013-2021. Þá langaði mig að breyta til og prófa að vinna sjálfstætt sem sálfræðingur við meðferðarvinnu og hóf störf á Litlu Kvíðameðferðarstöðinni í Reykjavík. Þar vinn ég enn samhliða vinnunni minni á Zen Sálfræðistofu.

Mig hefur langað til að vera sálfræðingur frá því að ég kláraði grunnskóla (fyrir ansi löngu síðan). Mér finnst gaman að vinna með fólki, hlusta á fólk, skilja og skoða hegðun fólks og hjálpa öðrum að finna lausnir sem bæta lífsgæði þeirra. Sem sálfræðingur við skóla fékk ég víðtæka reynslu til að finna áhugasvið mitt og dýpkaði svo enn frekar áhuga minn og þekkingu á Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. Mér finnst ofsalega gaman að læra og það besta við starfið er að ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi af öllu frábæra fólkinu sem kemur til mín. Það sem ég sinni helst þessa stundina er tilfinninga-, hegðunar- og samskiptavandi barna og ungmenna, vinna með ýmsar kvíðaraskanir, depurð og þunglyndi, sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir, átröskun, uppeldisráðgjöf, líðan nýbakaðra foreldra og svo margt annað. Mér finnst einnig mjög gaman að vinna með íþróttafólki og hjálpa þeim að bæta árangur sinn í íþróttinni, halda fyrirlestra og námskeið af ýmsum toga fyrir foreldra, starfsfólk skóla, félagasamtök og þjálfara.

Ég sat í stjórn Félags sálfræðinga við skóla til ársins 2021 og tók nýverið við sem meðstjórnandi í stjórn Sálfræðingafélags Íslands. Ég er einnig meðlimur í WPATH (World Professional Association for Transgender Health) og sæki reglulega ráðstefnur og námskeið til þess að viðhalda þekkingu minni og læra enn meira um allt mögulegt.

Mig dreymdi um að geta opnað mína eigin stofu og loks hefur Zen sálfræðistofa orðið að veruleika. Nafnið á stofunni má rekja til hugsunar minnar gagnvart því að staldra við og taka eftir, öðlast skilning á því sem er að gerast og verkfæri til að takast á við það. Von mín er sú að geta einnig hjálpað öðrum með öllu því sem ég hef lært og þeim aðferðum sem rannsóknir sýna að virki, til að mínum skjólstæðingum líði vel og geti fundið sitt eigið “zen”.

Þessa stundina starfa ég ein á Zen Sálfræðistofu en hver veit hvað verður.